Lögmaður segir að dómar sem féllu gegn Lýsingu í héraðsdómi í síðustu viku geti verið fordæmisgefandi fyrir um 80% skjólstæðinga fyrirtækisins. Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag.

Dómsmálin sem Lýsing tapaði í héraði sl. þriðjudag snúa að endurútreikningi ólögmætra gengislána. Málin voru rekin af lögmannsstofunni Gengislán.is og segir Jóhannes S. Ólafsson, lögmaður Gengislána, að stofan sé búin að stefna um 100 málum sem flest falli undir þessa dóma sem féllu í síðustu viku.

Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Lýsingar, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé barnaskapur að tala um fjöldatölur í þessu samhengi og að Lýsing hafi unnið öll mál fyrir Hæstarétti er varða gengistryggingu frá árinu 2012. Hann bætir við að ekki sé búið að ákveða hvort Lýsing áfrýi dómunum.

Þór segir að þegar sé búið að skýra stóru línurnar er varða þessi mál. Nú sé hins vegar verið að takast á um smærri og afmarkaðari þætti þessa mála. Því segir hann að þeir dómar sem falli núna hafi síður almennt fordæmisgildi. Þær kröfur sem Lýsing hefur t.a.m. fengið hafa snúist um neikvæða vexti á lán, að þeir sem taki lán fái borgað með þeim í stað þess að borga vexti. Að sögn Þórs er nauðsynlegt fyrir fjármálafyrirtæki að spyrna við fótum þegar slíkar kröfur koma fram.