Ákæra setts saksóknara, Björns L. Bergssonar, á hendur Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, er einstök í sögu dómsmála hér á landi. Aldrei fyrr hefur opinber starfsmaður verið ákærður fyrir að hafa hagnýtt sér upplýsingar sem hann hafði undir höndum vegna starfs síns. Ákæra á hendur Baldri var gefin út á fimmtudaginn í síðustu viku. Eru þar sérstaklega tiltekin sex atriði sem þykja styðja það að Baldur hafi gerst sekur um innherjasvik og þar með einnig brot í opinberu starfi.

Aðeins einu sinni hefur verið ákært fyrir innherjasvik í íslenskri dómsögu. Það var árið 2001. Þá var Gunnar Scheving Thorsteinsson ákærður vegna viðskipta með hlutabréf í Skeljungi. Hann var sýknaður í héraði og var málinu ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Ekkert dómafordæmi frá Hæstarétti er því til staðar um hvernig innherjasvik eru túlkuð. Af eina dómnum sem fallið hefur er ljóst að ríkar kröfur eru gerðar um viðskipti hafi átt sér stað á grundvelli innherjaupplýsinganna.

Opinbert tómarúm

Fjármálaeftirlitið sinnir eftirliti með eftirlitsskyldum aðilum á markaði, s.s. tryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum. Þau hafa síðan innri verkferla, endurskoðendur og regluverði, sem eiga að hafa yfirlit því að lögum sem framfylgt. Eins og rakið er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var innra eftirlitið í bönkunum fyrir hrun þeirra mjög ábótavant.

Hjá hinu opinbera, þ.e. innan ráðuneyta og stofnana, er ekkert eftirlit með því að farið sé með innherjaupplýsingar með viðeigandi hætti, þ.e. að þær séu ekki notaðar til þess að koma sparnaði í skjól eða í öðrum viðskiptum. Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands eru undantekningar frá þessu. Báðar stofnanirnar gera strangar kröfur um að starfsmenn virði reglur um að gæta trúnaðar. Þetta á ekki síst við um Seðlabankann sem ákvarðar vexti og hefur peningastefnuna lögum samkvæmt á sínu verksviði. Regluvörður innan bankans hefur eftirlit með því að lögum sé framfylgt. Um er að ræða upplýsingar um útgefendur verðbréfum, vitneskju um málefni fjármálastofnana, vaxtabreytingar og raunar allt það sem talist getur verðmyndandi. Það sama á við um Fjármálaeftirlitið. Um allar upplýsingar ríkir trúnaður og þá ekki síst um upplýsingar er viðkoma fjárhag fyrirtækja og eftir atvikum einstaklinga, sem tengst geta rannsóknum og athugunum innan FME.

Samhengið

Það sem reynir á málum er tengjast meintum innherjasvikum er samhengið á milli upplýsinganna sem teljast til innherjaupplýsinga og síðan viðskipta þess sem grunaður er um innherjasvik. Sanna þarf að viðskiptin hafi átt sér stað vegna innherjaupplýsinganna. Það er ekki í öllum tilfellum augljóst mál gegn neitun þess sem sakaður er um lögbrotin. Í fyrrnefndu máli Baldurs mun t.d. reyna á hvort hann hafi búið yfir meiri upplýsingum um stöðu Landsbankans heldur en almenningur hér á landi og erlendis. Fjölmiðlar fluttu t.d. fréttir af bágri stöðu bankanna allt árið 2008 og fram að falli þeirra. En bág staða er eitt og nákvæmar upplýsingar um nær vonlausa stöðu er annað. Þremur vikum eftir að Baldur seldi bréf sín í Landsbankanum fyrir 192 milljónir, 17. og 18. september, féll Landsbankinn.

Í ákærunni á hendur Baldri er fullyrt að hugtaksskilyrðum innherjaupplýsinga í skilningi laga um innherjasvik sé fullnægt. "Innherjaupplýsingar þessar eru nægjanlega tilgreindar og afmarkaðar en auk þess var mikils trúnaðar krafist um þær og þær þannig ekki gerðar opinberar. Upplýsingarnar vörðuðu Landsbanka Íslands beint en brot ákærða fólst í sölu á hlutabréfum hans í bankanum," segir m.a. í ákærunni.