Steven Maijoor, stjórnarformaður evrópska verð­bréfa- og markaðseftirlitsins ESMA, var hér á landi á dögunum. Hann átti fundi með ýmsum aðilum sem hafa að­ komu að reglugerðarrammanum utan um verðbréfaviðskipti hér á landi, þar á meðal Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum og Nasdaq Iceland.

Þá hélt Maijoor erindi á morgunverðarfundi Fjármálaeftirlitsins þar sem fjallað var um innleiðingu íslenskra stjórnvalda á samevrópsku regluverki í kringum afleiðuviðskipti. Í erindi sínu sagði Maijoor að það að samræma íslenska löggjöf við þá evrópsku snerist ekki bara um öryggi íslenska fjármálamarkaðarins, heldur ekki síður um öryggi hins samevrópska markaðar.

Minnkuðu eftirlit til að fá viðskipti

Á fundi Fjármálaeftirlitsins talaði Maijoor um þá ógn sem steðjar að samkeppni eftirlitsaðila á evrópska efnahagssvæðinu. Lönd hafi hvata til að sjá í gegnum fingur sér gagnvart eftirlitsskyldum aðilum á fjármálamarkaði til að laða fyrirtækin að.

„Ég held að Ísland valdi okkur ekki sérstökum áhyggjum hvað þetta varðar,“ segir Maijoor. „En almennt séð þá höfum við lært það af fjármálakrísum að það voru of margar fjármálamiðstöðvar á EES-svæðinu sem minnkuðu umfang eftirlits síns til að laða viðskipti til sín.“

Maijoor segir lýsingar hafa verið skýrasta dæmið um þetta. „Við vitum að í kringum hápunkt kreppunnar voru eftirlitsaðilar að keppast um það að túlka reglur með sem hagstæðustum hætti fyrir fjármálafyrirtæki. Ég held að við höfum lært það af fjármálakreppunni að við þurfum að forðast svona samkeppni milli eftirlitsaðila og að öll 31 löndin á EES-svæðinu ættu að hafa sömu staðla. Meðalhófsreglan er í gildi, en markaðsaðili á Íslandi á engu að síður að vera háður sömu stöðlum og reglum eins og markaðsaðili af sömu stærð í Hollandi, Spáni, Grikklandi eða Þýskalandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .