Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, AGS, úthlutaði forðaeign í sérstökum dráttarréttindum (Special Drawing Rights, SDR) til aðildarlanda sjóðsins á mánudaginn síðasta, 23. ágúst. Forðaeign Íslands fer úr 184 milljónum SDR í 492 milljónir SDR við úthlutunina. Það hefur í för með sér að gjaldeyrisforði Íslands stækkar um 55,4 milljarða króna eða um tæp 2% af vergri landsframleiðslu (VLF), að því er kemur fram í tilkynningu Seðlabanka Íslands.

Vergur gjaldeyrisforði Seðlabankans nam um 858,7 milljörðum króna í lok júlí. Miðað við stöðuna síðustu mánaðamót eykst gjaldeyrisforði bankans nú um 6,5% og nemur alls um 31% af VLF. Hlutfall sérstöku dráttarréttindanna af forðanum fer úr 4% í 10%.

Heildarúthlutun AGS jafngildir 650 milljörðum Bandaríkjadala og er dreift til aðildarlanda í réttu hlutfalli við kvóta þeirra. Kvótar endurspegla stöðu landa í heimshagkerfinu og mynda grunninn að útlánagetu sjóðsins auk þess að atkvæðavægi landa í stjórn hans ræðst af kvóta.

„Úthlutunin nú er sú stærsta í sögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og á meðal annars rætur í þeim efnahagsþrengingum sem mörg lönd hafa gengið í gegnum vegna Covid-19-faraldursins. Úthlutuninni er ætlað að styðja við aðgengi landa að lausafé, styrkja gjaldeyrisforða og draga úr þörf fyrir óhagstæðari lántökur innanlands og erlendis. Gert er ráð fyrir að lönd geti nýtt hið aukna rými til að styðja við efnahaginn og takast á við áhrif Covid-19-faraldursins,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.

Á vef Seðlabankans segir að SDR er gjaldmiðlakarfa ákvörðuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í dag samanstendur karfan af fjórum gjaldmiðlum, Bandaríkjadal, bresku pundi, evru og japönsku yeni. Gjaldmiðlasamsetning körfunnar er ákvörðuð á fimm ára fresti af AGS. Sjóðurinn reiknar daglega gengi SDR í bandarískum dollurum út frá verði myntanna í körfunni á hádegi á gjaldeyrismarkaðnum í London. Alþjóða- og markaðssvið Seðlabanka Íslands ákvarðar daglega gengi SDR gagnvart
íslenskri krónu.