Samkvæmt áætlun Seðlabankans eykst gjaldeyrisforðinn sem hlutfall af skammtímaskuldum nokkuð á þessu og næsta ári. Ein forsenda þessarar áætlunar er að gjaldeyrishöftunum verði að fullu aflétt í samræmi við áætlanir stjórnvalda. Fram kemur að þrátt fyrir mikla óvissu um áhrif afnáms hafta og annarra forsenda sem liggja að baki áætluninni sýni niðurstöður að nægur gjaldeyrisforði sé til staðar til að mæta óvæntu útflæði, ef til þess kæmi. Ljóst er að með því að endurgreiða hluta af skammtímaskuldum og gefa svo út skuldabréf til lengri tíma eykst gjaldeyrisforðinn eins og hann er skilgreindur af Seðlabankanum sem hlutfall af skammtímaskuldum. Skilgreiningin á gjaldeyrisforðanum gerir það að verkum að hann veltur á því hve háar skammtímaskuldirnar eru á hverjum tíma.

Seðlabanki Íslands og ríkissjóður ákváðu að greiða fyrirfram næstu gjalddaga á lánum tengdum efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um miðjan mars til að lækkakostnað af gjaldeyrisforðahaldi. Um 116 milljarðar voru endurgreiddir en í byrjun maí var svo ákveðið að fara í skuldabréfaútboð af hálfu ríkissjóðs þar sem seld voru skuldabréf fyrir 1 milljarð dollara, eða um 124 milljarða króna. Skuldabréfin eru á hærri vöxtum en til lengri tíma, eða til tíu ára í stað þess að gjalddagarnir á lánum AGS og Norðurlandanna voru á árunum 2013, 2014, 2015 og 2016.

Í svari Más Guðmundssonar seðlabankastjóra við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvort ekki kæmi til greina að minnka forðann í ljósi aukins vaxtakostnaðar, kom fram að forðinn þurfi að vera í hámarki eftir rúmlega eitt og hálft ár þegar lög gera ráð fyrir að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Vaxtakostnaður vegna forðans hleypur á milljörðum króna á hverju ári en erfitt er að slá því föstu hver hreinn vaxtakostnaður er vegna skorts á tölum frá Seðlabankanum.

Davíð Stefánsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, greindi frá því fyrir stuttu að greiningardeildin áætlaði kostnaðinn um 32 milljarða á þessu ári. Samtals frá hruni er samanlagður kostnaður nærri 100 milljörðum króna. Þar sem erfitt er að áætla vaxtatekjur ríkisins, þar sem þær velta á því hvernig þeim er fjárfest, þá er erfitt að meta hversu marga milljarða ríkissjóður hefur fengið á móti í vaxtatekjur. Tekjurnar eru samt sem áður töluvert lægri þar sem stór hluti þeirra liggur í innlánum eða er fjárfest í öruggum skuldabréfum sem bera lága vexti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.