*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 11. janúar 2017 19:40

Forðinn jókst um 163 milljarða

Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands jókst um 163 milljarða króna árið 2016 og nam 815 milljörðum í árslok 2016.

Ritstjórn

Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 163 milljarða króna á árinu 2016 eða 1,4 milljarða USD miðað við gengi í árslok og nam í árslok 815 milljörðum króna eða um 7,2 milljörðum dala. Í lok árs svaraði gjaldeyrisforðinn til 34% af vergri landsframleiðslu, 49% af peningamagni og sparifé (M3) og hann dugði fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í ellefu mánuði.

Þessa samantekt má finna í skrifum Seðlabanka Íslands um árið 2016. Hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans námu 386 milljörðum króna og áttu stærstan þátt í aukningu forðans á árinu.

Endurheimtur Eignasafns Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs í erlendum gjaldeyri vegna krafna á slitabú juku forðann um 27 milljarða króna og sala á gjaldeyrisláni Arion banka til slitabús nam 56 milljörðum króna. Uppgreiðsla Arion banka á skuldabréfi í eigu ríkissjóðs jók forðann um 9,1 milljarð. Kaup á gjaldeyri af ríkissjóði vegna stöðuleikaframlaga námu 9,4 milljörðum og sala á bréfum útgefnum af Glitni, Kaupþingi og LBI nam 30 milljörðum króna.

Mikilvægustu þættirnir sem drógu úr aukningu forðans á árinu voru gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans við slitabú sem námu 75 milljörðum króna og lokagjalddagar á erlendum lánum ríkissjóðs, samtals að andvirði 64 milljarða króna. Gjaldeyrisútboð og gjaldeyrisviðskipti vegna aflandskróna fólu í sér 65 milljarða króna. útflæði gjaldeyris.

Einnig greiddi ríkissjóður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 14 milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Breytingar á gengi og markaðsverði skuldabréfa stuðluðu að 121 milljarði króna minni forða í krónum en ella.

Gjaldeyrisforðinn að frádregnum skuldum Seðlabankans og ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðli nam 592 milljörðum króna í lok árs 2016 en 304 milljarða í lok árs 2015. Þannig reiknaður hafði hann því stækkað um 288 milljarða á árinu 2016. Gjaldeyrisjöfnuður Seðlabankans, þ.e. mismunur eigna og skulda bankans í erlendum gjaldmiðli, nam u.þ.b. 610 milljörðum króna í lok ársins 2016 samanborið við 358 milljarða króna í lok árs 2015.