Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, segir að forðinn þurfi að vera í hámarki eftir rúmlega eitt og hálft ár þegar lög gera ráð fyrir að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Þetta kom fram á vaxtaákvörðunarfundi í Seðlabankanum í dag í svari Más við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvort ekki væri til skoðunar að lækka gjaldeyrisforðann í ljósi aukins vaxtakostnaðar vegna forðans. Már bætti því einnig við að eftir að höftin væru afnumin væri hægt að lækka forðann í framhaldinu.

Már bætti því við að viðmiðið vegna forðans væri að hann næmi allavega öllum skammtímaskuldum. Í Peningamálum Seðlabankans sem kom út í dag kemur fram að gert sé ráð fyrir að forðinn nemi 123% af skammtímaskuldum á árinu 2012, 132% á árinu 2013 og 132% á árinu 2014.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þá eru nettó útgreiðslur gjaldeyriseigna bankans og ríkissjóðs fyrir næstu tólf mánuði áætlaðar um 430 milljarðar króna, að því er greint er frá á vefsíðu Seðlabankans.