Foreldrar barna í Skagafirði borga minnst allra á landinu fyrir skólamáltíðir og  síðdegisgæslu þegar allt er tekið saman, samkvæmt verðlagseftiliti ASÍ á gjöldum fyrir ýmsa opinbera þjónustu sveitarfélaga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sveitarfélaginu Skagafirði.

Heildarkostnaður foreldra vegna þessarar þjónustu hefur hækkað hjá öllum 15 sveitarfélögunum sem skoðuð voru á síðasta ári, mest hjá Reykjavíkurborg eða 11% úr 23.530 kr. í 26.100 kr. á mánuði.

Heildarkostnaður lægstur í Skagafirði

Kostnaðurinn reyndist vera lægstur í Skagafirði, eða 24.234 kr. á mánuði en hæstur í Garðabæ 36.484 kr. sem er 51% munur. Miðað er við hádegismat, þriggja tíma vistun og hressingu fyrir barn í neðri bekkjum grunnskólans í 21 dag.

Ef gjaldskrá fyrir hádegismat grunnskólabarna er skoðuð kemur fram að máltíðin er dýrust á Ísafirði 10.332 kr. á mánuði og ódýrust hjá Sveitarfélaginu Árborg 7.329 kr. á mánuði. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði kostar máltíðin 8.673 kr. á mánuði.
Er miðað við 21 virkan dag í þessum samanburði.

Hádegisverðurinn ódýrastur á Seltjarnarnesi

Hádegisverður í skólum Sveitarfélagsins Skagafjarðar er sá 5. lægsti yfir landið.

ASÍ kannaði einnig gjöld fyrir átta tíma vistun á leikskóla með fæði og er hæsta gjaldið fyrir þá þjónustu 39.578 kr. í Vestmannaeyjum en lægsta á 25.760 kr. á Seltjarnarnesi. Í Skagafirði er gjaldið 36.215 kr. á mánuði.

Níundi tíminn dýrastur í Kópavogi

Hjá flestum sveitarfélögum kostar níundi tíminn í vistun leikskólabarna meira en hinir átta.

Í Kópavogi er hann dýrastur og kostar 13.698 kr., í Reykjavík 11.750 kr. og Vestmannaeyjum 10.130 kr. Lægsta gjaldið er hjá Sveitarfélaginu Skagafirði 2.977 kr.