Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, segir það koma fyrir að foreldrar vilji að kennarar gefi börnum sínum hærri einkunnir en upphaflegt mat gefur tilefni til. Þetta kemur fram á fréttavef Vísis.

Hún segir foreldra stundum senda kvartanir um einkunnagjöf kennara, oftast til stjórnenda í viðkomandi skólum. „Oftar en ekki eru málin afgreidd í skólunum en í einstaka tilfellum hafa foreldrar vísað málum áfram til skólamálanefndar viðkomandi sveitarfélags," er haft eftir Guðbjörgu.

Könnun sem var unnin fyrir sænska kennarasambandið sýnir að sjö af hverjum tíu kennurum hafi orðið fyrir þrýstingi frá óánægðum foreldrum. Hún telur vandann vera sambærilegan hér, þó að ekki hafi verið gert sambærileg könnun á Íslandi.