Elín Sigríður Óladóttir tók á dögunum við starfi samráðsfulltrúa Landsnets. Um er að ræða nýtt starf sem styður við stefnu Landsnet um upplýsta umræðu og markvisst samtal, þar sem áhersla er lögð á að ná sem víðtækastri sátt í samfélaginu um hlutverk Landsnets.

„Landsnet mótaði nýja stefnu árið 2015 sem byggist á því meðal annars að eiga frumkvæði að stöð- ugu samtali við hagsmunaaðila. Þar er lögð áhersla á bætt samtal með vísun í hreinskilni og samvinnu að leiðarljósi sem eru starfshættir sem mér finnst vera til fyrirmyndar. Hagsmunaaðilarnir geta verið ólíkir eftir því hver verkefni eru hverju sinni. Þetta eru viðskiptavinir Landsnets, landeigendur, sveitarfélög og náttúruverndarsamtök svo dæmi séu tekin. Ég hlakka virkilega til að taka þátt í þessari vegferð,“ segir Elín

Mikil útivistarmanneskja

Elín er gift Heimi Heimissyni og eiga þau saman fjögur uppkomin börn. Þau búa í Hafnarfirði og segist Elín vera mikil Haukakona og styðji þá með ráð og dáð. „Sumarið hefur verið mér gjöfult, í sömu viku og ég byrjaði hjá Landsneti eignaðist ég mitt fyrsta barnabarn sem á hug minn og hjarta þessa dagana. Annar gleðiatburður var síðan þegar dóttir mín gifti sig í júní á dásamlegum degi.“

Fyrir utan vinnu segist Elín vera mikil útivistarmanneskja. „Ég er gjörsamlega forfallin í golfinu þessa dagana og höfum við hjónin spilað heilmikið á þessu ári. Við eigum sumarbústað í Landsveit og spilum þess vegna mikið á Hellu. Ég hef einnig gaman af skíðum og að vera í samskiptum við fólk. Mér finnst fátt skemmtilegra en matarboð með góðu fólki.“

Elín segist einnig vera mikil göngukona. „Ég er nýkomin úr ferð um Strandir þar sem ég rak hótel og fór þar með góðum hóp kvenna yfir Bjarnarfjarðarháls. Strandirnar eru algjörlega frábært svæði sem og reyndar Ísland allt í sínum margbreytileika.“

Nánar er rætt við Elínu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.