Krafu Sigmunds Ellingbö, fyrrverandi starfsmanns í útibúi Landsbankans í Osló, í þrotabú bankans var ekki samþykkt sem forgangskrafa í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ellingbö fór fram á að krafa að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur, jafnvirði um 22,6 milljónir króna á gengi dagsins í dag, yrði samþykkt sem forgangskrafa.

Ellingbö var ráðinn forstöðumaður fjármálasviðs útibúsins í apríl 2008 og samið var um að árslaun yrðu 1.100.000 norskar krónur. Einnig var samið um kaupauka og að hann skyldi á árinu 2008 að lágmarki jafngilda 12 mánaða föstum launum.

Deilt var um hvort krafan skyldi vera forgangskrafa eða almenn krafa. Ellingbö taldi gögn sýna að krafa hans falli undir launahugtak norsks gjaldþrotaréttar og eigi því að vera forgangskrafa í bú Landsbankans. Dómurinn taldi þó nokkuð skorta á að gögnin feli í sér sönnun um efni og tilvist norsku réttarreglu, sem vísar var til.

Þá taldi dómarinn kaupaukagreiðsluna óháða vinnuframlagi og gæti ekki talist laun. Hún fékk því ekki forgang, en samþykkt sem almenn krafa.