Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir nýju efnahags- og viðskiptaráðuneyti en það þýðir m.a. að verkefni frá fjármálaráðuneyti og forsætisráðuneyti verða flutt yfir til viðskiptaráðuneytisins.

Einnig verða málefni Seðlabankans og Hagstofunnar flutt undir hið nýja ráðuneyti.

Til að færa verkefnin á milli þarf að breyta lögum og er stefnt að því að leggja fram lagafrumvarp nú í sumar. Ekki liggur fyrir hvenær nýtt efnahags - og viðskiptaráðuneyti lítur dagsins ljós en það gæti orðið í haust eða í byrjun næsta árs.

Málaflokkurinn verði á einum stað

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að með þessu sé m.a. verið að bregðast við ábendingum Kaarlos Jännäri, fyrrverandi forstjóra finnska fjármálaeftirlitsins, sem skilaði stjórnvöldum í vetur skýrslu um reglur og eftirlit á íslenskum fjármálamarkaði.

Jännäri benti m.a. á að málefni fjármálamarkaðarins og efnahaglífsins væru undir of mörgum ráðuneytum og að það væri ein ástæða þess hve stjórnsýslunni hefði gengið erfiðlega að takast á við vanda fjármálakerfisins. Með fyrirhuguðum breytingum verða þessir málaflokkar á einum stað.

Óljóst hve margir starfsmenn færast yfir

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins verða verkefni efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins, sem heldur m.a. utan um samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og verkefni efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, sem heldur m.a. utan um þjóðhagsspá, flutt undir hið nýja ráðuneyti.

Ekki liggur fyrir hversu margir - né hvaða starfsmenn - verða færðir yfir með verkefnunum en Björn Rúnar Guðmundsson var fyrir jól, eða í tíð Geirs H. Haarde forsætisráðherra, settur yfir efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Með þeirri skipan var verið að styrkja þann málaflokk í forsætisráðuneytinu. Þorsteinn Þorgeirsson er skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Þrír vinna hjá efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins og tólf hjá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Sett í forgang

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru víðtækar breytingar á stjórnkerfinu boðaðar á kjörtímabilinu en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins verða umræddar breytingar - nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti - þó settar í forgang. Í sáttmálanum segir enn fremur að forsætisráðuneytið eigi að fá „aukið forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk m.a. með stýringu samráðsnefnda ráðherra".

Einnig á að setja á fót fastan samstarfsvettvang stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og önnur lykilhagsmunasamtök um þróun íslensks samfélags. „Ráðuneytið mun stýra stefnumörkun á sviði stjórnsýsluumbóta og -þróunar, þróunar lýðræðis og stjórnskipunar, samkeppnishæfni Íslands og jafnréttis kynjanna."