„Við hljótum að geta verið sammála um það að það er forkastanlegt af hálfu vinaþjóða, nágrannaríkja að koma saman vitandi vits án aðkomu Íslendinga og gera samkomulag án þess að okkur sé hleypt að samningaborðinu,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Hann sagði að Íslendingar og Alþingi Íslendinga ættu að senda skýr skilaboð um að framkoma Evrópusambandsins og Norðmanna gagnvart Íslendingum væri ekki vel metin.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði að því hverju það sætti að Evrópusambandið, Norðmenn og Færeyingar hefðu gert samkomulag um skiptingu makrílkvótans án aðildar Íslendinga.

Árni Páll sagði að utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins hefði í gegnum tíðina snúist um hagsmunamat og að gæta hagsmuna Íslendinga. „Til að gæta hagsmuna þurfa menn að komaast að borðinu og þeir þurfa að vita hvað er á seyði. Núna er þannig komið fyrir ríkisstjórninni að hún kemst ekki að borðinu þegar fjallað er um brýna hagsmuni íslands,“ sagði Árni Páll.

Hann benti sömuleiðis á að það hlálega væri að þetta gerðist daginn eftir ríkisstjórnin hefði samþykkt stefnu í samskiptum við Evrópusambandið. „Gleymdist að tilkynna Færeyingum og Norðmönnum það að þeir væru orðnir hornsteinninn í utanríkisstefnu Íslands?“ spurði Árni Páll.