Korputorg ehf. og SMI ehf. voru á dögunum sýknað af kröfu Haga hf. um viðurkenningu á forkaupsrétti að verslunareiningu í Korputorgi. Af hálfu Haga var því haldið fram að viðskipti um eignina hafi verið útfærð þannig að unnt væri að sniðganga forkaupsréttinn.

Atvik málsins eru þau að árið 2007 gerðu Hagar samning við SMI, sem þá var móðurfélag fyrirtækisins Stekkjarbrunns ehf., eiganda fasteignarinnar, um að leigja um 2.200 fermetra rými í Korputorgi en þar hefur verið verslun undir merkjum Bónus frá haustinu 2008. Samningurinn var til tíu ára hið minnsta og skildu Hagar hafa forkaupsrétt að hinu leigða svæði.

Í desember 2013 seldi eigandi Korputorgs, þá dótturfélag SMI, fasteignina sem heild, alla 45 þúsund fermetrana, fyrir tæpa 3,4 milljarða. Kaupandi var Korputorg ehf. Árið 2016 var Korputorg síðan selt til SMI og kaupverð þá um sex milljarðar. Fóru þá af stað samskipti milli fyrirsvarsmanna félaganna þriggja, er deildu í málinu, um forkaupsréttinn.

Fyrir dómi byggðu Hagar á því að félagið hefði mátt treysta því að félaginu yrði gert viðvart skriflega um tilboðið í eignina svo að félagið gæti neytt forkaupsréttar síns. SMI og Korputorg byggðu hins vegar á því að aldrei hafi borist tilboð í eignina heldur hafi verið um eignatilfærslu fasteignarinnar á milli tengdra félaga. Því hafi forkaupsrétturinn ekki virkjast.

Í annan stað var byggt á því að ef dómurinn teldir að forkaupsrétturinn hefði virkjast þá hefði hann fallið niður sökum tómlætis enda hefðu Hagar vitað af eignatilfærslunni í ársbyrjun 2014. Hagar báru því á móti við að félagið hefði ekki vitað af þessu fyrr en árið 2016. Finnur Árnason, forstjóri félagsins, bar meðal annars vitni um það fyrir dómi.

Dregist úr hófi að neyta réttar síns

Í dómi héraðsdóms var vikið að því að vafi væri uppi um það að SMI hefði haft heimild til að semja um Haga, fyrir hönd dótturfélagsins Stekkjarbrunns sem var þinglýstur eigandi eignarinnar, um forkaupsrétt. Þóttu Hagar þurfa að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

Síðar í dóminum var vikið að því að þrjú ár liðu frá því að tæp þrjú ár liðu frá því að kaupsamningur var gerður um eignina, það er í desember 2013, þar til að Hagar lýstu því yfir að félagið hefði áhuga á að ganga inn í kaupin. Engin tilkynning var send um kaupin en frá og með áramótum 2014 fór Högum að berast reikningar vegna leigunnar frá Korputorgi ehf. Forsvarsmaður félagsins sagðist einnig hafa fundað með fyrrgreindum Finni sem þá hefði fengið vitneskju um gjörninginn.

Dómurinn taldi sannað af þeim skjölum sem lágu fyrir í málinu að Högum hefði verið kunnugt um eigendaskiptin í síðasta lagi í september 2014 er fulltrúum ábyrgum fyrir rekstri Bónus var tilkynnt um þau. Var talið að félagið hefði dregið þar úr hófi fram að neyta forkaupsréttar síns og því ekki fallist á viðurkenningarkröfuna. Þá voru Hagar dæmdir til að greiða hvoru félagi um sig rúmlega 1,2 milljónir í málskostnað eða 2,5 milljónir alls.