Landbúnaður og tengd fyrirtæki skapa 12.000 manns atvinnu. Þá framleiddi landbúnaður árið 2011 vörur fyrir rúmlega 50 milljarða króna á ári, jafnvirði 150 milljónir króna á dag. Útflutningsverðmæti landbúnaðarvara nam 11 milljörðum króna á sama tima. Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Haraldar Benediktssonar, fráfarandi formanns Bændasamtaka Íslands, við setningu Búnaðarþings í gær.

Morgunblaðið fjallar um Búnaðarþingið í dag. Þar segir að í ræðu sinni hafi Haraldur vikið að versnandi rekstrarskilyrðum bændabýla. Framleiðsluverðmæti búvöru á grunnverði hafi hækkað um 49% á árunum 2007 til 2011. Á sama tíma hafi verð á aðföngum til framleiðslunnar hækkað um 60%.

Haraldur sagði að umsóknina um aðild að Evrópusambandinu væri í sínum huga pólitískt dauð. „Henni verður endanlega aflýst eftir alþingiskosningarnar í vor, en þær kosningar eru fullveldiskosningar,“ sagði hann.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sagði á sama fundi fjárfestingu í innviðum og bættum þróunarmöguleikum sveitanna og strjálbýlisins á Íslandi vera einhverja þá ábatasömustu sem Íslendingar geti ráðist í.