Ljóst er að formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, Helgi Helgason, mun ekki verða í framboði fyrir komandi alþingiskosningar.

Náði flokkurinn einungis að skila inn löggildum framboðum í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi, en hann var efstur á lista í Suðvesturkjördæmi, kjördæminu sem er með flest þingsæti, eða 11 auk tveggja jöfnunarþingsæta.

Uppbótarþingsæti ólíkleg

Þar með er ólíklegt að flokkurinn geti fengið uppbótarþingsæti því erfitt verður að ná 5% fylgi á landsvísu með atkvæðum úr þeim tveimur kjördæmum sem hann býður sig fram.

Mun hærra fylgi þarf til að fá kjördæmakjörna menn í hvoru þessara kjördæma fyrir sig, en í Norðvesturkjördæmi eru 7 kjördæmissæti og eitt jöfnunarsæti og í Suðurkjördæmi eru 9 kjördæmissæti og eitt jöfnunarsæti.

Það þýðir að flokkurinn þyrfti annars vegar 11% fylgi og hins vegar 14% fylgi í hvoru kjördæmi fyrir sig.

Alþýðufylking og Húmanistar ekki í öllum kjördæmum

Aðrir flokkar sem ekki ná að bjóða fram í öllum kjördæmum eru Alþýðufylkingin sem ekki náði að bjóða fram í Norðvesturkjördæmi og Húmanistaflokkurinn sem býður sig einungis fram í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Fyrir utan þá sex flokka sem þegar eru á þingi, það er Björt framtíð (A), Framsóknarflokkur (B), Sjálfstæðisflokkur (D), Píratar (P), Samfylkingin (S) og Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V), þá ná einungis Viðreisn (F), Flokkur fólksins (F) og Dögun (T) að bjóða fram í öllum kjördæmum.

Flokkur fólksins næstur lágmarkinu

Af þeim flokkum sem eru ekki þegar inná þingi, er Viðreisn eini flokkurinn sem verið hefur vel yfir lágmarkinu í flestum könnunum. Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis er flokkur Fólksins eini flokkurinn til viðbótar sem er nálægt 5% lágmarkinu, eða með 3,4% fylgi.

Athygli vekur að Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi þingmaður Frjálslyndaflokksins og þýðandi bókarinnar Þjóðarplágan Íslam er oddviti flokksins í Reykjavík norður.