Jón Ingi Gíslason, formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík, hefur verið ákærður fyrir meiriháttar brot á skattalögum fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008 og 2009 og ekki talið fram 110,5 milljónir króna vegna uppgjöra á 44 framvirkum gjaldmiðlasamningum við Glitni. Í ákæru embættis sérstaks saksóknara er honum gefið að sök að hafa stungið 11 milljónum króna undan skatti. Mál sérstaks saksóknara gegn Jóni Inga var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og var Ragnar H. Hall þar skipaður verjandi hans.

Fram kemur í ákæru sérstaks saksóknara á hendur Jóni Inga að tekjur hans af samningunum námu 13,3 milljónum króna árið 2007 og 97 milljónum króna árið 2008.

Ekki hefur tekist að ná í Jón Inga þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.