Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, sagði á fundi í Norræna húsinu í dag að hún líti á það sem skyldu sína að bjóða sig fram til embættis forseta. Í frétt mbl.is af fundinum segir að Andrea hafi nefnt þrjú helstu baráttumál sín, nái hún kjöri. Þau eru lánamál heimilanna, lögfestingu lágmarkslauna og lýðræðisumbætur. Hvað lánamálin áhrærir sagði Andrea að leiðrétta þyrfti skuldir heimila og afnema verðtryggingu. Á slíkri endurreisn þurfi þjóðin að halda. Með því að lögfesta lágmarkslaun sé fólki sýnd virðing og nauðsynlegt sé að fá þjóðaratkvæðagreiðslur í lög sem öryggisventil fyrir þjóðina.

Andrea sagðist sannfærð um að þessi mikilvægu mál myndu ná mjög hratt fram að ganga ef þingmenn væru á lágmarkslaunum á meðan þeir ynnu að þeim. Af þessum sökum ætlar hún að aðeins að þiggja lágmarkslaun á þar til fyrstu tveimur markmiðunum er náð. Afganginn ætlar hún að gefa til góðra mála. Eftir að markmiðunum er náð hyggst hún einungis þiggja helming launanna og gefa hinn til góðra málefna í gegnum sérstakan forsetasjóð.

Þá sagði Andrea að hennar fyrsta verk í embætti verði að kalla til þjóðfundar til að eiga samvinnu um það hvernig þjóðin sér fyrir sér að nota embættið. Hún hyggst einnig ræða við fólk hvaðanæva á landinu og fylgja því eftir með skoðanakönnun. Þannig geti hún tryggt að hún starfi samkvæmt því sem þjóðin vill.