Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og forstjóri Icelandair Group, segir launaskrið forstjóra og næstráðenda í fyrirtækjum landsins mikil vonbrigði ef sönn reynast. En samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar hafa laun millistjórnenda í einkafyrirtækjum hækkað um allt að 40% milli ára. Þessu greinir RÚV frá.

Eins og VB.is fjallaði um hafa laun millistjórnenda í einkafyrirtækjum hækkað um allt að 40 prósent að jafnaði milli ára, en laun stjórnenda um 13 prósent. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 5,7% því er um óvenjulega hækkun að ræða.

Að meðaltali eru millistjórnendur einkafyrirtækja með um 2,2 milljónir í mánaðarlaun og 200 launahæstu forstjórarnir með 2,6 milljónir. Laun forstjóra hækkuðu að jafnaði um 300 þúsund krónur á mánuði í fyrra og sumra millistjórnenda um allt að 600.000 krónur.

Björgólfur Jóhannsson sagði í samtali við RÚV að tíðindin væru veruleg vonbrigði ef sönn reynast. Hann undirstrikar að engin ástæða sé til að efast um vinnubrögð Frjálsrar verslunar. Ef launatölurnar séu réttar sé verið að bæta ríflega upp launaskerðingu stjórnenda undanfarin ár. Hann segir þetta því vera mikil vonbrigði í ljósi nálgunar SA í átt til stöðugleika á vinnumarkaði.