„Við erum að skoða þetta,“ segir Steinunn H. Guðbjartsdóttir formaður slitastjórnar Glitnis. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að bankaskattur verði lagður á fjármálastofnanir í slitameðferð.

Áætlað er að þessi skattbreyting muni skila ríkissjóði 11,3 milljörðum króna í tekjur. Steinunn segir ekki hægt að segja neitt til um þessa tillögu fyrr en nánari útfærsla á henni liggur fyrir. Hún ítrekar þó að málið sé í skoðun innan slitastjórnarinnar.

Þessi skattur sem lagður verður á fjármálastofnanir í slitameðferð er ein helsta leið ríkissjóðs til aukinnar tekjuöflunar á næsta ári.