Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarformaður Icelandair, keypti í morgun hluti í félaginu fyrir tæplega 9,8 milljón krónur. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Í tilkynningunni nú kemur fram að Guðmundur hafi keypt tæplega 5,6 milljón hluti á genginu 1,76 krónur á hlut. Ekki kemur fram í tilkynningunni hve marga hluti Guðmundur á eftir viðskiptin en samkvæmt síðustu tilkynningu um viðskipti stjórnarformannsins, sem dagsett er í maí þessa árs, keypti hann 3 milljónir hluta á genginu 1,6. Voru það einu hlutir hans í Icelandair.

Það sem af er degi hefur gengi félagsins lækkað um 2,81% en velta með bréf þess hefur numið tæplega 300 milljónum. Það sem af er ári hefur gengi þess hækkað um 5,49% en um 90,11% á síðastliðnum tólf mánuðum.