Stóriðja á Íslandi einkennist af áætlunarbúskap og kjördæmapoti frekar en markaðsbúskap. Hægri menn á Íslandi ættu að láta af stuðningi við stóriðju í þeirri mynd sem hún hefur verið hingað til enda eru það að lokum skattgreiðendur sem bara ábyrgð á þeim raforkufyrirtækjum sem selja orku til stóriðjunnar.

Þetta segir Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Davíð Þorláksson
Davíð Þorláksson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Davíð tekur þar fram að sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta séu veigamestu útflutningsgreinar Íslendinga. Íslenskur sjávarútvegur sé einn sá arðbærasti og hagkvæmasti í heimi og hér á landi sé hann skattlagður sérstaklega umfram aðrar atvinnugreinar á meðan hann njóti ríkisstuðnings víðast hvar í nágrannalöndum okkar. Þá sé ferðaþjónustan að mestu leyti sjálfsprottin þó svo að ríkisvaldið styrki markaðsstarf erlendis lítillega.

„Vindar markaðshyggjunnar blása því miður ekki með sama þrótti um stóriðjuna,“ segir Davíð og telur upp nokkur dæmi.

„Í fyrsta lagi sér hið opinbera stóriðjunni fyrir ódýrri orku. Raforkuver eru byggð með lánum sem skattgreiðendur ábyrgjast í gegnum ríkissjóð og sveitarfélög. Þetta felur raunverulegan fjármagnskostnað, því að ef illa fer er hægt að borga af lánunum með því að hækka skatta á borgarana. Þessi lági fjármagnskostnaður skilar sér svo í lægra orkuverði til stóriðjunnar. Með öðrum orðum eru skattgreiðendur settir að veði til að niðurgreiða orku til stóriðjunnar. Í öðru lagi nýtur stóriðja sérstakrar skattafyrirgreiðslu. Fyrirtækin þurfa jafnan ekki að greiða jafnháan tekjuskatt og fasteignagjöld og þeim er jafnframt lofað að skattarnir þeirra fari ekki yfir tiltekin mörk. Í þriðja lagi krefst stóriðjan þess að ríki og sveitarfélög leggi í ýmsan kostnað til að þjónusta stóriðjuna, svo sem vegaframkvæmdir, með ærnum tilkostnaði.“

Þá segir Davíð að til að allt þetta geti gerst þurfi ýmsir stjórnmála- og embættismenn að koma að málinu og á endanum séu það þeir sem ákveða starfsemin á að vera staðsett og hversu umfangsmikil hún á að vera.

„Þetta fyrirkomulag í atvinnuuppbyggingu hljómar kunnuglega og er nær samblandi af áætlunarbúskap og kjördæmapoti en markaðsbúskap,“ segir Davíð.

Þá segir Davíð jafnframt að hver ný stóriðjuframkvæmd sé svo stór inn í íslenskt hagkerfi að atvinnulífið og öll þjóðin þurfi að búa við hærra vaxtastig en ella meðan á uppbyggingunni stendur vegna þensluáhrifa þeirra.

„Landsvirkjun áformar fjárfestingar fyrir 400 milljarða á næstu 10 árum og fyrir um 180 milljarða árin 2021-2025. Mikilvægt er að ríkissjóður gangist ekki í ábyrgð fyrir þeim fyrirætlunum,“ segir Davíð.

„Gangi áætlanir Landsvirkjunar eftir mun það þýða að skuldir fyrirtækisins munu meira en tvöfaldast. Áhætta félagsins mun jafnframt aukast mikið þar sem hlutfall sölu til stóriðju myndi hækka úr 80% í 90%. Um 90% eggjanna yrðu öll í einni og sömu körfunni og hrun á álverði gæti þannig lagt miklar byrðar á skattgreiðendur. Erum við virkilega búin að gleyma Icesave-raðklúðrinu? Þetta ætti að segja manni, sem vill kenna sig við hægristefnu eða markaðshyggju, að stóriðjustefna sé eitthvað sem hann á að láta eiga sig. Hægrimenn ættu þó svo sem ekki að hafa neitt á móti stóriðju ef hún væri byggð upp á eðlilegum markaðsforsendum. Staðreyndin er þó því miður sú að það er fyrst og fremst fræðileg hugleiðing, en ekki raunveruleg. Allri stóriðju sem byggð hefur verið upp á Íslandi, og fyrirhugað er að byggja upp, hefur verið komið á fót með ofangreindum ríkisstuðningi.“