Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu, sem fram fór í gær, gagnrýndi Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu harðlega vinnuaðferðir við kjarasamninga. Sagði hún að Íslendingar verði að komast út úr því að einblína á prósentuhækkanir en horfa í staðinn á kaupmáttinn, segir Margrét.

Í tilkynningu segir að Margrét telji að næstu kjarasamningar þurfi að vera grundvallaðir á innistæðu í stað óskhyggju og sendi hún þau skilaboð til forystu ASÍ að lítið mál sé að stöðva verðhækkanir, svo lengi sem sköpuð séu skilyrði stöðugleika. „Á meðan gerðir eru samningar sem ekki er innstæða fyrir, lagðar eru á auknar skattheimtur á borgara og gjaldmiðillinn heldur verðgildi sínu verr en Matadorpeningur þá verða afleiðingarnar alltaf verðhækkanir, sem aftur grafa undan öllum kjarasamningum sem gerðir eru,“ sagði Margrét.