Aðrar iðngreinar en verslun og þjónusta hafa fests sig við ákveðin ráðuneyti. TIlfinning Samtaka verslunar og þjónustu er sú að innan efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, sem iðngreinin fellur undir, séu málefni þess geymd í einni skúffu sem er opnuð á tyllidögum.

Þetta sagði Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) á aðalfundi félagsins í dag. Hún var gagnrýnin á stjórnvöld og sagði að atvinnulífið þurfi að láta heyra í sér í dag og segja „hingað og ekki lengra“.

Margrét sagðist þó ekki vera ein af þeim sem kenni einni ríkisstjórn um allt sem illa fer. Í dag skorti frumkvæði og að of margir líta til ríkisstjórnarinnar sem eina lausn vandans. Hún sagði að andrúmsloftið í þjóðfélaginu í dag einkennast af svartsýni, vonleysi og reiði. Grátkórinn hafi tekið yfir sviðið og nú þurfi að tala kjark í þjóðina.

Mikilvægast sagði Margrét að auka hér hagvöxt og stækka þannig kökuna. Til þess þurfi að nýta allar auðlindir til sjávar og sveita á sjálfbæran hátt.

Mikilvægt að samþykkja Icesave

Margrét sagði afar brýnt að Icesave-samningarnir yrðu samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún lýsti yfir áhyggjum af niðurstöðum könnunar Viðskiptablaðsins þar sem niðurstöður voru að afar mjótt er á munum. Margrét telur að atvinnulífið þurfi að taka þessum niðustöðum alvarlega.  Málið sé löngu hætt að snúast um hvort Íslandi skylt sé að greiða vegna Icesave, málið snúist um þjóðarhag og vænlegast sé að samþykkja samningana, sagði Margrét.