Ilmur Kristjánsdóttir, varaborgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, sem tók við af Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sem formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir í samtali við Morgunblaðið að ráðast þurfi í breytingar á velferðarkerfi borgarinnar.

Ilmur segist sammála mörgu af því sem fram kom í máli Bjarkar í síðustu viku þar sem Björk talaði um að veikleikavæðing hefði átt sér stað innan velferðarkerfisins á sama tíma og hún tilkynnti um að hún hygðist biðjast lausnar frá störfum sínum sem borgarfulltrúi.

"Veikleikavæðing er auðvitað stórt hugtak og á sér dýpri rætur en í velferðarkerfi Reykjavíkurborgar," segir Ilmur sem telur að nú sé rétti tíminn fyrir breytingar. Reykjavíkurborg býr við 10 ára gamalt kerfi að sögn Ilmar og hefur kerfið þanist mikið út á þeim tíma. "Nú neyðist borgin til að fara í uppskurð á öllum sviðum. Neyðin elur af sér breytingar, en það ber að líta á það jákvæðum augum líka," segir hún.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn segir að stefna sambandsins hafi í allmörg ár verið að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga yrði breytt og skilyrðingar fyrir fjárhagsaðstoð gerðar löglegar.