VR greiddi 1,2 milljarða króna úr sjúkrasjóði félagsins á síðasta ári. Rúmlega helmingur fjárhæðarinnar voru sjúkradagpeningar. Upphæðin hefur aldrei verið meiri en útgjöld sjóðsins vegna sjúkradagpeninga hefur aukist um þriðjung frá árinu 2011. Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, segir þetta áhyggjuefni.

Fram kemur í tilkynningu frá VR að greiðslur sjóðsins vegna sjúkradagpeninga námu 638 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 475 milljónir árið 2011. Þá námu greiðslur úr varasjóði rúmum 450 milljónum króna í fyrra. Það er 16% aukning frá árinu 2011.  Mikill meirihluti umsókna úr varasjóði er vegna heilsueflingar, s.s. forvarna, læknisþjónustu og sjúkraþjálfunar. Tæplega 50 milljónir króna voru greiddar úr sjúkrasjóði í dánarbætur til fjölskyldna félagsmanna sem létust á árinu.

Í tilkynningu er haft eftir Stefáni að á sama tíma og hann hafi áhyggjur af þróun mála þá sé það fagnaðarefni að sjóðurinn geti stutt við bakið á félagsmönnum sem stríði við langavarandi heilsuleysi

„Við getum ekki horft framhjá þeirri staðreynd að aukið álag á vinnumarkaði og viðvarandi áhyggjur fjölskyldna taka sinn toll af heilsunni. Félagsmenn eru lengur frá vinnu en áður og fleiri leita til sjóðsins. Til að tryggja heilbrigðan vinnumarkað í framtíðinni er mikilvægt að við bregðumst rétt við og höldum því starfi áfram sem nú er unnið innan Virk starfsendurhæfingarsjóðs,“ segir hann.