Þrjú af fimm kjördæmasamböndum Framsóknarflokksins héldu í gær kjördæmaþing og á öllum þingum lá fyrir tillaga um að boðað yrði til flokksþings sem fyrst, þar sem stjórn flokksins er kosin. Svo virðist sem einhverjir Framsóknarmenn vilji að stjórn flokksins endurnýi umboð sitt fyrir komandi Alþingiskonsingar vegna atburða undanfarinna mánaða. Framsóknarmenn á Suðurlandi og Norðvesturlandi samþykktu tillöguna um flokksþing en hins vegar var hún felld í Norðausturkjördæmi, kjördæmi formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Hefði svo farið að öll þrjú þing hefðu samþykkt tillögu um flokksþing hefði flokknum borið skylda til að verða við því. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, var mættur á fundinn á Suðurlandi og að sögn RÚV lagði hann áherslu á að flokkurinn hefði staðið sig gríðarlega vel málefnalega og efnt stór loforð. Árangurinn væri því ótvíræður.

„Það er hins vegar enginn vafi að við erum í ákveðnum vandamálum í forystusveit flokksins og við höfum verið að ræða það. Og það hefur auðvitað komið fram í fjölmiðlum að það sem kom upp á í vor hefur auðvitað laskað formanninn,“ var haft eftir Sigurði Inga á RÚV.

Sigmundur Davíð finnur stuðning

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í samtali við RÚV eftir fundinn í Norðausturkjördæmi að hann hefði aldrei sett sig á móti flokksþingi. Þrátt fyrir að tillagan hafi verið felld í kjördæmi hans vildi umtalsverður fjöldi að boðað yrði til flokksþings.

„Flokksþing eru skemmtilegar samkomur en það eru ýmis praktísk atriði sem þarf að huga að og ég held að það sé best að miðstjórnin sinni sínu hlutverki í að meta það,“ segir Sigmundur. Hann hefur verið duglegur að ferðast um landið og funda með flokksmönnum.

„Þar sem maður hefur komið og hitt Framsóknarmenn, og það er gaman að sjá hversu vel er mætt, þar skapast góðar umræður og ég finn mikinn stuðning á slíkum fundum. Ég mun halda því áfram næstu vikurnar.“

Höskuldur ósáttur

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, var afar ósáttur eftir að tillagan um flokksþing hafði verið felld.

„Ég er fyrst og fremst vonsvikinn að þetta hafi orðið niðurstaðan. Ég hélt að það væri augljóst og að það lægi fyrir að núverandi forysta og þá á ég við alla þá sem að eru í forystu flokksins, þar á meðal ég, þurfum að endurnýja umboð okkar á flokksþingi,” var haft eftir Höskuldi á Vísi .

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé algjörlega ótækt að það verði ekki flokksþing áður en við göngum til kosninga.”