Kosning formanns Samtaka atvinnulífsins fyrir aðalfund samtakanna 16. apríl næstkomandi er hafin og stendur hún yfir til klukkan 16:00 sunnudagsins 15. apríl.

Kosningin er rafræn og fá félagsmenn SA í dag sent lykilorð í tölvupósti til að geta tekið þátt í formannskjörinu. Eyjólfur Árni Rafnsson, sem tók við formennsku á síðasta ári, gefur áfram kost á sér fyrir starfsárið 2018 til 2019. Á aðalfundinum sem hefst klukkan 12 á hádegi mánudaginn eftir að kosningu lýkur verður svo greint frá kjöri formanns og stjórnar SA næsta kjörtímabil.

Kjörgengir til embættis formanns eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja og aðildarfélaga samtakanna segir á vef samtakanna. Ársfundur atvinnulífsins 2018 fer svo fram í kjölfar aðalfundarins í Hörpu - Silfurbergi, kl. 14-15.30 og er hann öllum opinn en hægt er að tryggja sér sæti með skráningu.

Framfarir í hundrað ár er yfirskrift fundarins en á árinu fagna landsmenn því að heil öld er frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki þann 1. desember árið 1918. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA og forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir ávarpa fundinn.