Stjórnarformaður Barclays bankans, Marcus Agius, segir lánsfjárskrísuna ekki vera yfirstaðna. Hins vegar er hún farin að hjaðna og mun smám saman renna sitt skeið, samkvæmt Marcus.

Fjárfestar óttast að frekara tap verði vegna lánsfjárskrísunnar og búast við því að fjárfestingabankar tilkynni um tap í þessari viku. Lehman Brothers hafa þegar spáð tapi upp á 2,8 milljarða Bandaríkjadala.

Barclays tapaði milljarði punda af eignum sínum á fyrsta ársfjórðungi. Raddir hafa heyrst um að bankinn muni bjóða út skuldabréf fyrir milljarða punda á næstunni, samkvæmt frétt Reuters. Hlutabréf Barclays féllu í lok vikunnar vegna orðróms um skuldabréfaútgáfu.

Marcus neitaði að svara hvort hann væri sáttur við stöðu bankans hvað fjármagn varðar.