Kjartan Magnússon, formaður þjóðhátíðarnefndar og borgarfulltrúi, varaði í þjóðhátíðarræðu sinni í gær við yfirvofandi skuldaánauð þjóðarinnar. Hann vék að þeim þungu áföllum sem þjóðin hefði orðið fyrir frá síðustu þjóðhátíð og sagði svo:

„Hvenær hremmingunum lýkur veit enginn og máske finnst sumum tæpast tilefni til hátíðarhalda, en það er rangt. Það er einmitt ástæða til þess að fagna því sem við höfum þrátt fyrir öll áföllin; að minnast þess sem sameinar okkur, stappa stálinu hvert í annað og mæta þessum þjóðarvanda sem ein, órofa þjóð. Við megum ekki gefast upp fyrir vandanum, það skuldum við sjálfum okkur, börnunum og Íslandi.

Sjálfstæðisbaráttunni lauk ekki fyrir 65 árum. Henni hefur aldrei lokið og máske aldrei verið harðari en einmitt þessa dagana. Lýðveldið er veikara en nokkru sinni og nú vofir yfir sú hætta að þjóðin verði að ósekju hneppt í skuldaánauð. Það má ekki gerast.

Lífskjör eiga vafalaust eftir að rýrna á Íslandi á næstunni. Út úr þeirri lægð þurfum við að vinna okkur, eins og við höfum allar forsendur til. En þó lífskjörin dali um stundarsakir er ekki þar með sagt að lífsgæðin minnki sjálfkrafa. Við verðum að gæta þess að þrengingarnar bitni ekki á börnum landsins eða þeim sem höllum fæti standa, en um leið gefst okkur tækifæri til þess að meta að verðleikum þau lífsgæði, sem okkur hættir við að líta á sem sjálfsögð.“