Í setningarræðu sinni á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem hófst fyrir stundu tók Björgólfur Jóhannsson, formaður LÍÚ, harða afstöðu gegn því að Ísland sækti um inngöngu í Evrópusambandið.

„Við erum á hnjánum. Halda menn í einlægni að það sé einhver hundalúga á útihurð Evrópusambandsins? Er ekki lágmarkið að standa í lappirnar ef menn ætla að knýja dyra á þeim bæ með ósk um inngöngu?“ sagði Björgólfur.

Björgólfur sagði að það lægi fyrir að Ísland yrði að afsala sér yfirráðum yfir fiskimiðum landsins til ESB ef við gengjum í sambandið.

Ákvarðanir um heildarafla og regluverk  Evrópusambandsins myndu því ná yfir fiskveiðar okkar.

„Á sama tíma og við höfum staðið vörð um okkar helstu fiskistofna og gert þá kröfu að fiskveiðarnar yrðu reknar á heilbrigðum, rekstrarlegum forsendum hefur ESB rekið þveröfuga stefnu. Fiskimið aðildarlandanna hafa verið ofnýtt, fiskiskipastóllinn er allt of stór og hundruðum milljarða hefur verið varið til þess að halda atvinnuveginum gangandi,“ sagði Björgólfur.