Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna sem nú stendur yfir að vöxtur og framþróun íslensks athafnalífs væri undir því komin að eiga greiðan aðgang að erlendu lánsfé, svo standa megi fyrir eðlilegri nýsköpun, aukinni framleiðni og nýjum arðbærum fjárfestingum.

„Á því mun hagvöxtur framtíðar byggja og því verða stjórnvöld að tryggja, að peningamálastefna og efnahagsumhverfi sé ekki til langframa þannig, að framfarir í atvinnulífinu stöðvist. Stöðnun jafngildir afturför, þegar atvinnulíf í öðrum löndum sækir fram,“ sagði Ingimundur.

Hann sagði Samtök atvinnulífsins hafa lengi haldið því fram, að peningamálastefna Seðlabankans sé komin í ógöngur og að stýrivextirnir, eina stjórntæki bankans, hefðu ekki þau áhrif, sem þeim er ætlað.

„Ástæðurnar eru annars vegar þær, að markaðshlutdeild óverðtryggðrar krónu, sem stýrivextir bankans hafa einkum áhrif á, er mjög lítil í lánakerfinu, en þess í stað eru fjárskuldbindingar íslenskra fyrirtækja og reyndar heimila einnig að stórum hluta bundnar verðtryggingu eða gengi erlendra gjaldmiðla,“ sagði Ingimundur. Þá sagði hann að hvorki ríki né sveitarfélög hefðu hagað útgjöldum nægjanlega í samræmi við efnahagsástandið „og hefur Seðlabankinn því ítrekað bent á nauðsyn þess að hemja opinber útgjöld í því skyni að draga úr eftirspurn.“

Ingimundur vék að erfiðleikum á fjármálamörkuðum í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem nú stendur yfir. Hann sagði umrót undanfarinna mánaða hafa orðið mörgum umhugsunar- og áhyggjuefni.

„Þetta er í fyrsta skipti frá því bankar hér á landi komust í einkaeigu, sem þeir standa frammi fyrir verulega erfiðum vanda. Sá vandi skapast fyrst og fremst af ytri aðstæðum, þar sem skortur á lausafé veldur fjármálafyrirtækjum víða um heim miklum erfiðleikum. Það er önnur söguleg og merkileg tilviljun, að á sama tíma og ríkisbankarnir voru einkavæddir jókst framboð af ódýru fjármagni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum meira en nokkru sinni. Það nýttu bankarnir sér vel, þeir hafa eflst, stækkað og orðið sífellt alþjóðlegri með fjölda starfsstöðva í mörgum löndum,“ sagði Ingimundur.

Þá sagði hann greiðan aðgang að lánsfé einnig vera fyrirtækjum í öðrum greinum lyftistöng „og þau hafa með aðstoð bankanna getað ráðist í arðbærar fjárfestingar og aukið þátttöku sína í atvinnurekstri erlendis, sem skilað hefur góðum arði inn í íslenskt samfélag.“

„Ekki er ástæða til að ætla annað en að þessi öflugu fyrirtæki muni standa af sér erfiðleikana og að þau muni læra af þessari nýju reynslu og bera hana með sér sem veganesti inn í framtíðina,“ sagði Ingimundur.