Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði í samtali við RÚV í morgun að honum lítist vel á hugmynd Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um að láta reyna á upptöku evru á grundvelli EES-samnigsins án aðildar að Evrópusambandinu (ESB). Víða innan SA sé hljómgrunnur fyrir því að taka upp evru, en Þór segir mikilvægt að ríkisstjórnin taki málið til umfjöllunar og skoði af alvöru að fara þessa leið.

Þór sagði einnig í viðtali við RÚV í morgun að umtalsverð lækkun stýrivaxta sé nauðsynleg, um 3-5% á skömmum tíma. Að sögn Þórs eiga mörg fyrirtæki við erfiðleika að glíma um þessar mundir og nauðsynlegt er að koma á eðlilegu efnahagsumhverfi sem fyrst.

Þetta kemur fram á vef SA.