Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, gagnrýnir ofurlaun forstjóra í upphafsræðu sinni á Iðnþingi.

,,Í atvinnulífinu hefur þenslan verið mikil og víða áberandi eyðsla. Svokölluð „ofurlaun“ á ýmsum stöðum hafa farið úr böndum og hleypt illu blóði í fólk. Íslenskur veruleiki er einfaldlega of smár fyrir ýmislegt sem við höfum séð. Ég hygg að flestir viðurkenni það. Vonandi verður tækifærið nú nýtt til að innleiða að nýju aðhald og ráðdeildarsemi. Á sumum bæjum eru vorhreingerningar þegar hafnar eins og skýrt hefur komið fram í máli nýkjörins formanns stjórnar Glitnis banka. Ég hygg að margir muni feta svipaða leið og hann. Sú þróun er reyndar víða hafin af krafti.  Það þarf að komast aftur niður á jörðina í þeim efnum án þess að það dragi úr okkur viljann til að afla tekna og skapa verðmæti,“ sagði Helgi.