Samtök verslunar og þjónustu SVÞ gagnrýna harðlega aðgerðarleysi stjórnvalda varðandi endurreisn atvinnulífsins. Margrét Kristmannsdóttir formaður SVÞ segir að farið sé að styttast verulega í langlundargeði bæði atvinnulífsins og almennings í landinu.

„Atvinnulífið hefur verið að bíða eftir því að umhverfið fari eitthvað að lagast þannig að fyrirtækin geti farið að gegna sínu hlutverki að skapa verðmæti og vinnu fyrir það fólk sem nú er á atvinnuleysisskrá. Í því umhverfi sem er í dag er þetta þó vonlaust mál, fyrirtækin eru gjörsamlega stopp.” Þá segir hún að stöðugleikasáttmálin sé líka í uppnámi ef ekkert gerist á næstu vikum.

Í tilkynningu sem SVÞ hefur sent frá sent segir m.a. að tími aðgerða sé runninn upp. “Ætla stjórnvöld að grípa til aðgerða sem stuðlað geta að styrkingu krónunnar og þar með lækkunar vaxta? Þetta er sú lykilspurning sem allir bíða eftir svari við. Afkoma heimila og fyrirtækja snýst nú um þessa tvo þætti. Atvinnulífið bíður enn – en þolinmæði þess er algerlega á þrotum.”

Þá segir einnig í tilkynningunni: „Nú þegar komið er fram í miðjan ágúst og Íslendingar almennt að koma til starfa á ný eftir sumarleyfi, erum við enn í sömu óvissunni með framhaldið og verið hefur undanfarna mánuði. Það styttist í að eitt ár sé liðið frá því að bankahrunið mikla dundi yfir okkur og því að verða eitt ár sem landsmenn hafa beðið. Þeir hafa beðið eftir aðgerðum af hendi stjórnvalda sem skapað geti forsendur fyrir því að endurreisn atvinnulífsins geti farið af stað og hægt verði að byggja upp íslenskt þjóðfélag á ný.”

Margir farnir fram af hengifluginu

Margrét segir að mörg fyrirtæki séu þegar komin fram af hengifluginu. „Menn hafa samt verið að eyða ótrúlega mikilli orku og púðri í þetta Icesave mál. Þó við gerum ekki lítið úr því máli, þá hefur öllu öðru verið haldið í gíslingu á meðan. Það er ekkert að gerast og skýrasta dæmið um það er að enn á ný er Seðlabankinn að tilkynna um óbreytta stýrivexti. Engar líkur eru á vaxtalækkun, þar sem gengi krónunnar hefur ekki styrkst eins og vænst var. Sú mynd sem blastir við næstu mánuði er því miður ekki björt.

Verðhækkanir í pípunum

Gengið skiptir okkur í versluninni gríðarlega miklu máli. Við óttumst að nú séu í pípunum verðhækkanir sem atvinnulífið tók á sig í vetur þar sem menn töldu að þar væri bara um kúf sem menn ætluðu að þreyja fram yfir þorrann. Nú eru menn að horfa fram á komandi mánuði og það er ekkert sem bendir til þess að krónan fari að styrkjast. Í þessari stöðu hefur atvinnulífið mjög lítið svigrúm til að taka á sig þessa miklu skerðingu sem þetta háa gengi er að skapa okkur mánuð eftir mánuð. Menn hafa ekki þol til þess lengur.

Við erum því að skora á stjórnamálamenn að taka sér tak og leysa þessi mál. Þeir hafa ekki allan tíma í heiminum til að eyða í þetta Icesave mál. Boltinn er hjá stjórnvöldum,” segir Margrét Kristmannsdóttir.