Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins lánaði flokk sínum fjórar milljónir króna á síðasta ári.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í samtali við Fréttablaðið segir Guðjón fjárhagsstöðu flokksins hafa verið erfiða að afloknum kosningunum 2007 og til að grynnka á skuldum hafi fasteign frjálslyndra við Aðalstræti 9 verið seld. Í framhaldinu voru gerðar áætlanir um greiðslu skulda.

Þá kemur fram að salan á Aðalstrætinu gekk óvænt til baka og þar með komust áætlanirnar í uppnám.

„Ég gerði þetta til að koma í veg fyrir að við misstum skuldir í dráttarvexti og lögfræðikostnað. Það varð að bjarga málunum svo flokkurinn lenti ekki í margra milljóna króna kostnaði," segir Guðjón sem sótti milljónirnar fjórar inn á bankabók.

Aðspurður kveðst hann ekki vera stóreignamaður, hann eigi kannski um tuttugu milljónir þegar allt er talið.

Sjá frétt Fréttablaðsins.