Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun verður haldinn fundur í Verði, fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík klukkan 17:15 í dag, þar sem tekin verður endanleg ákvörðun um framboðsmál flokksins í Reykjavík. Fyrir fundinum liggur tillaga stjórnar Varðar um að farin verður svokölluð blönduð leið, þar sem prófkjör verður um oddvitasætið, nefnt leiðtogaprófkjör, en uppstilling ráði öðrum sætum.

Í síðustu viku birti Arndís Kristjánsdóttir, formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna grein þar sem hún talaði gegn hugmyndinni, og sagði hana skref aftur á bak. Hins vegar hafa formenn flestra sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir styðja tillögu stjórnarinnar.

Tryggir fjölbreytni

Nefna formennirnir í yfirlýsingunni meðal annars að þessi leið tryggi aukinn hlut kvenna og að hægt verði að sækja fólk úr fjölbreyttari bakgrunni, þar með talið ólíkum hverfum borgarinnar. „Á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar röðuðu þrír karlmenn sér í þrjú efstu sætin.

Sjálfstæðisflokkurinn var brautryðjandi prófkjörsleiðarinnar og hefur haft hana að meginreglu á vali á framboðslista sína en er á sama tíma óhræddur að velja nýjar leiðir við val á lista sem tryggt getur aukna fjölbreytni, styrkt hlut kvenna og sótt fulltrúa úr ólíkum hverfum borgarinnar,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Opin prófkjör sætt gagnrýni

„Sjálfstæðismenn í Reykjavík geta því allir tekið þátt og haft áhrif á val á næsta leiðtoga flokksins í borginni. Uppstillingarnefnd, kjörin af fulltrúaráði flokksins, velur síðan fulltrúa í önnur sæti á lista.Á undanförnum árum hefur þátttaka í prófkjörum farið dvínandi, en til marks um það tóku aðeins 3400 manns þátt í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir síðustu alþingiskosningar. Það er versta þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksin í Reykjavík frá upphafi.

Til samanburðar eru um 2000 einstaklingar í fulltrúaráði flokksins, sem kjósa uppstillinganefndina. Opið prófkjör hefur sætt sívaxandi gagnrýni flokksmanna sér í lagi margra sjálfstæðiskvenna er þótti hlutur kvenna rýr í niðurstöðum síðustu prófkjöra víða um land til alþingiskosninga.“

Undir yfirlýsinguna skrifa:

  • Friðrik Þór Gunnarsson, formaður Heimdallar
  • Egill þór jónsson, formaður Hóla- og Fellahverfis
  • Sigurður Helgi Birgisson, formaður Nes- og Melahverfis
  • Elín Jónsdóttir, formaður í Árbæ
  • Árni Guðmundsson, formaður í Grafarvogi
  • Elín Engibertsdóttir, formaður í Langholtshverfi
  • Júlíus Helgi Eyjólfsson, formaður í Grafarholti
  • Hafsteinn Númason, formaður á Kjalarnesi
  • Gylfi Þór Sigurðsson, formaður í Háaleiti