Bókað var í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að greinargerðir hafa verið lagðar fram í máli embættis sérstaks saksóknara gegn þremur fyrrverandi stjórnendum gamla Landsbankans. Um formlegan þátt málsins var að ræða þar sem greinargerðum hefur þegar verið skilað. Sakborningarnir eru Sigurjón Þ. Árnason,  fyrrverandi bankastjóri gamla Landsbankans, Elín Sigfúsdóttir, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og Steinþór Gunnarsson, sem var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs gamla Landsbankans.

Málið lýtur að hlutdeild fyrrverandi starfsmanna gamla Landsbankans í meintri markaðsmisnotkun í Landsbankanum í aðdraganda hruns, níu milljarða króna króna lánveitingar til félaganna Ímon og Azalea Resources Ltd í tengslum við kaup þeirra á hlutabréfum í bankanum. Ímon var í eigu fjárfestisins Magnúsar Ármann en Azalea Resources skráð á bresku Bresku Jómfrúreyjum og í eigu finnska fjárfestisins Ari Salmivuori, viðskiptafélaga Björgólfs Thors Björgólfssonar, eins af helstu hluthöfum gamla Landsbankans og sonar Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs bankans.

Sex fyrrverandi starfsmenn Landsbankans voru ákærðir í málinu. Það var þingfest í héraðsdómi í apríl. Því var skipt upp í tvö mál í haust og er Sigurjón sá eini sem tengist báðum málunum.

Aðrir sem tengjast málinu eru Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður fyrirtækjasviðs gamla Landsbankans og miðlarinn Sindri Sveinsson.