Formlega hefur verið gengið frá sameiningu Kauphallar Íslands við norrænu kauphöllina OMX en eigendur Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing (EV) hafa nú undirritað samning þess efnis að Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráning Íslands gangi til liðs við OMX Nordic Exchange eins og áður var tilkynnt að stæði til.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að hluthafar EV muni fá greitt með 2.067.560 nýlega útgefnum hlutabréfum í OMX (1,7 prósenti af heildarfjölda útistandandi bréfa). Það jafngildir um 2,5 milljörðum íslenskra króna miðað við að hlutabréfaverð OMX sé 131 sænskar krónur. Í kjölfar þessara viðskipta verður heildarfjöldi útistandandi hlutabréfa í OMX 120.640.467.

Auk þess mun OMX greiða í peningum fyrir handbært fé og verðbréf í eigu EV og verður ákveðið í lok viðskiptanna hver sú upphæð verður. Ráðgert er að gengið verði frá viðskipum í lok nóvember næstkomandi og að EV verði þar með hluti af samstæðuuppgjöri OMX.


"Í kjölfar frágangs viðskiptanna í lok nóvember fer samþættingarvinna í Kauphöll Íslands á fullt. Stefnt er að þátttöku skráðu félaganna í hinum nýja OMX Nordic List frá 1. janúar 2007. ?Þessi samningur markar upphaf nýs tímabils í þróun verðbréfaviðskipta á Íslandi. Kauphöllin mun áfram leggja áherslu á að efla markaðinn með því að grípa þau tækifæri sem skapast með sameiningu við OMX" segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar segir við þetta tilefni telja að sá áhugi sem Ísland hefur vakið erlendis á árinu muni skila sér í meiri vexti og að sá vöxtur muni auka áhugann enn frekar.