Kappaksturskeppnin Formúla 1 hefur skrifað undir samkomulag við Snapchat um framleiðslu á efni frá komandi keppnum. Er þetta fyrsti auglýsingasamningurinn sem Formúla 1 gerir við stafrænan miðil sem er fyrst og fremst í snjallsímum.

Í frétt BBC um málið kemur fram að fyrsta keppnin sem fjallað verður um sé Breski kappaksturinn sem fram fer á hinni fornfrægu Silverstone braut um næstu helgi. Samkvæmt samkomulaginu mun efnið sem frá keppnunum koma fram á „Snapchat Our Stories" og mun innihalda myndir og myndskeið sem áhorfendur á keppnum Formúlu 1 setja inn á samfélagsmiðilinn.

Samkvæmt yfirmanni stafrænna markaðsmála hjá Formúlu 1 er samningurinn fyrsta skerfið í því að víkka út markaðssetningu keppninnar á samfélagsmiðlum. „Við þurfum að halda áfram að ná í nýja áhorfendur. Það ætlum við að gera með því að ná til þeirra í gegn um samfélagsmiðla með efni sem sýnir hvað fer fram bak við tjöldin. Snapchat er sá miðill sem er hvað vinsælastur á meðal ungs fólks, sem er aldurshópurinn sem við viljum sérstaklega ná til þar sem hann stendur fyrir framtíð íþróttarinnar," sagði Frank Arthofer yfirmaður stafrænna markaðsmála hjá Formúlu 1.