*

mánudagur, 13. júlí 2020
Erlent 29. maí 2020 18:30

Formúluliðið Williams til sölu?

Formúluliðið Williams sem hefur unnið F1 níu sinnum er mögulega til sölu eftir 17 milljóna punda rekstratap á árinu 2019.

Ritstjórn
epa

Formúlu 1 liðið Williams gæti verið til sölu eftir 17 milljóna punda rekstrartap á síðasta ári. Fyrirtækið Williams Grand Prix Holdings tilkynnti fyrr í dag að til skoðunar væri að selja fyrirtækið að hluta til eða í heild sinni. Financial Times segir frá.  

Fyrirtækið segist ekki hafa fengið nein tilboð enn þá en að viðræður við „örfáa aðila“ væru komnar af stað. Fjárfestingarbankinn Allen & Co hefur verið ráðinn sem ráðgjafi við mögulega sölu á fyrirtækinu. 

Tilkynningin þykir koma á óvart þar sem Sir Frank Williams, stofnandi liðsins, hafði alltaf haldið því fram að hann hygðist eiga fyrirtækið til frambúðar, samkvæmt frétt BBC

Williams hefur ratað í neðsta sæti formúlunnar á síðustu tveimur tímabilum sem hefur sett strik í reikninginn, jafnvel fyrir heimsfaraldurinn. Liðið var stofnað árið 1977 og hefur unnið meistaratitilinn níu sinnum.  

Rekstrartap fyrirtækisins nam 17 milljónum punda eða um 2,86 milljarða íslenskra króna á rekstrarárinu 2019. Tekjur félagsins voru um 96,6 milljónir punda en þær lækkuðu um 35,7 milljónir punda milli ára. Fyrirtækið býst við því að faraldurinn muni setja enn meiri þrýsting á tekjur þess. Liðið hefur einnig slitið sambandi við helsta styrktaraðila sinn ROKiT ásamt ROK Drinks. 

„Fjárhagasniðurstöður ársins 2019 endurspegla hina nýlegu hnignun F1 starfseminnar og þeirrar lækkunar á auglýsingatekjum sem af henni leiðir,“ sagði Mike O‘Driscoll, forstjóri Williams. 

F1 vonast til að hefja núverandi tímabil að nýju þann 5. júlí næstkomandi í Vín eftir að hafa aflýst 10 keppnum hingað til. Williams segist vera „fjármagnað og tilbúið“ í akstur. 

Stikkorð: Williams F1 Formúla eitt