Forsætisráðherra Grikklands, Lucas Papademos, lagði hart að grísku þjóðinni að sætta sig við aðgerðaáætlun stjórnarinnar í ríkisfjármálum, en gríska þingið þarf að samþykkja umtalsverðan niðurskurð í útgjöldum eigi Grikkland að fá björgunarlán frá AGS og ESB.

Aðeins eru nokkrar vikur þar til 14,5 milljarða evru skuldabréf kemur á gjalddaga og eigi Grikkland að geta greitt það lán verður ríkið að fá þennan björgunarpakka afgreiddann.

Gríska þjóðin er hins vegar lítt hrifin af niðurskurðaráætluninni, sem m.a. gerir ráð fyrir 22% lækkun á lágmarkslaunum, niðurskurði á lífeyrisgreiðslum og uppsögnum allt að 15.000 ríkisstarfsmanna. „Við þurfum að fórna miklu svo við þurfum ekki að fórna öllu,“ sagði George Papandreou, leiðtogi sósíalistaflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Mótmæli halda áfram fyrir utan þinghúsið í Aþenu, en á föstudag laust mótmælendum saman við lögreglu.