*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 20. júlí 2017 08:02

Fórnarlömb eigin velgengni

Aðalráðgjafi Samkeppnisráðgjafar segir ógildingu Samkeppniseftirlitsins á samruna Haga og Lyfju óvænta en vel rökstudda. Hann telur ólíklegt að eftirlitið muni hafna kaupum Haga á Olís annars vegar og kaupum N1 á Festi hins vegar.

Ásdís & Snorri
Haraldur Guðjónsson

Síðastliðinn mánudag ógildi Samkeppniseftirlitið samruna smásölufélagsins Haga hf. og lyfsölufélagsins Lyfju hf. Í rökstuðningi Samkeppniseftirlitsins, sem birtur var daginn eftir, kom fram að með kaupum sínum á Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði og þar með skaðað samkeppni, einkum á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði, almenningi og atvinnulífi til tjóns. Að sögn forstjóra Samkeppniseftirlitsins hefði samruninn verið „skref í öfuga átt.“

Eggert B. Ólafsson, lögmaður hjá Samkeppnisráðgjöf, segir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins fyrir margar sakir áhugaverða og óvænta. Hann telur ólíklegt að eftirlitið muni hafna áformuðum samrunum olíufélaga og smásölufélaga, og dregur í efa að Hagar muni kæra niðurstöðuna til áfrýjunarnefndar.

Þau tíðkast hin breiðu spjótin

Eggert segir ógildingu Samkeppniseftirlitsins á samruna Haga og Lyfju koma á óvart, ekki síst í sögulegu samhengi.

„Á árunum eftir efnahagshrunið mæddi mikið á Samkeppniseftirlitinu, en þá einkenndist starfsemin mikið af því að reyna að hafa einhverjar hömlur á yfirtökum bankanna á fyrirtækjum sem lentu í rekstrarerfiðleikum. Það krafðist nýrra vinnubragða af hálfu samkeppnisyfirvalda og ég held að þeim hafi farist það nokkuð vel úr hendi þegar á heildina er litið.“

Eggert bendir á að þannig hafi Samkeppniseftirlitið ógilt samruna á að minnsta kosti hálfs árs fresti á árunum 2005 til 2012. „Svo gerðist í raun ekkert í fimm ár, eða þar til fyrir mánuði síðan. Á einum mánuði hefur eftirlitið stöðvað tvo samruna, annars vegar samruna frauðplastvöruframleiðendanna Tempra og Plastgerðar Suðurnesja og hins vegar samruna Haga og Lyfju. Flestir samrunar sem Samkeppniseftirlitið hefur stöðvað hingað til hafa verið samrunar til einokunar, eins og frauðplastsamruninn. Það átti hins vegar ekki við um samruna Haga og Lyfju, þar sem þeir voru að fá á bilinu 50-55% markaðshlutdeild, eða í mesta lagi 70-80%, allt eftir markaðsskilgreiningum.“

Eggert segir því niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins hafa komið sér á óvart, þó hún hafi verið vel rökstudd.

„Við fyrstu sýn taldi maður að þarna væri um dæmigerðan samsteypusamruna að ræða, þar sem dagvöruverslanir Haga myndu renna saman við fyrirtæki í alls óskyldri grein, sem selur lyf. Hagar virðast að mestu leyti hafa samið þessa samrunatilkynningu og í henni leggja þeir mikla áherslu á að um sé að ræða samsteypusamruna. En Samkeppniseftirlitið bendir á að Hagar séu með hátt hlutfall af snyrti- og hreinlætisvörum og að apótek Lyfju séu jafnvel að fá meira út úr sölu á slíkum vörum heldur en á lyfjum. Eftirlitið leggur því áherslu á það í ákvörðun sinni að þeir líti á þetta sem láréttan samruna, þar sem samruninn felur í sér skörun á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði,“ segir Eggert. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kom fram að samruninn hefði leitt til þess að á þeim markaði hefði horfið samkeppni sem nú er á milli Haga og Lyfju.

Eggert lýsir því sem svo að Hagar og Lyfja séu í raun fórnarlömb eigin velgengni fram að þessu, sem og eigin samþættingar í rekstri og fjölbreytts vöruúrvals og starfsemi. Staða þeirra á markaði geri það að verkum að þeim séu í raun flestar bjargir bannaðar í að mæta breyttum markaðsaðstæðum og aukinni samkeppni.

„Í samrunatilkynningunni segja Hagar að markmið samrunans sé að ná fram samlegðaráhrifum með kaupum á Lyfju, sérstaklega hvað varðar húsnæði. Þeir sáu greinilega fyrir sér að apótekin yrðu við hliðina á eða inni í verslunum Haga. Þeir bjóðast ekki til að hafa lyfsölurnar annars staðar. Rökin sem þeir tefla þarna fram vinna hins vegar beinlínis gegn þeim í þessu máli. Þetta er stundum kallað „hagkvæmnisógnin“ í samkeppnisrétti. Ef menn geta ekki sýnt fram á hagkvæmni sem muni skila sér til neytenda en ekki bara í sterkari samkeppnisstöðu, þá er mjög erfitt að byggja á slíkum rökum.“

Ekki endilega fyrirboði

Tveir samrunar olíufélaga og smásölu bíða nú meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu. Í apríl síðastliðnum tilkynntu Hagar um kaup á Olís og fasteignafélaginu DGV ehf. og í júní var tilkynnt um kaup N1 á Festi, sem rekur meðal annars Krónuna og Elko. Eggert segir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í máli Haga og Lyfju ekki endilega gefa fyrirheit um það sem koma skal í samrunum olíufélaganna og smásölufélaga.

„Í þessum tilfellum tel ég að um sé að ræða hreinræktaðri samsteypusamruna. Hingað til hefur Samkeppniseftirlitið skilgreint þjónustubensínstöðvar, þar sem boðið er upp á ýmsar nauðsynjavörur, sem annan markað heldur en dagvörumarkað eða þægindabúðamarkað. Það er því líklegt að þessir samrunar verði leyfðir, en að þeim verði sett skilyrði til að stemma stigum við útilokunaráhrifum, enda eru dagvörumarkaðurinn og bensínmarkaðurinn fákeppnismarkaðir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is