*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 16. febrúar 2020 16:28

Fórnarlömbin verði stærstu hluthafarnir

Bandaríska orkuveitan PG&E leggur til að bæta fórnarlömbum sinuelda sem hún bar ábyrgð á með hlutafé.

Ritstjórn
Sinueldar eru bæði tíðir og skæðir í Kaliforníufylki. Árið 2018 var metár að því leyti, en þá brunnu 767 þúsund hektarar af landi í yfir 8.500 sinueldum og yfir 100 manns létu lífið.
epa

Bandaríska orkuveitan PG&E hefur viðrað hugmyndir um að greiða fórnarlömbum sínum með hlutabréfum í félaginu sjálfu. Fyrirtækið lauk skaðabótamáli við fjölda fórnarlamba með dómssátt sem felur í sér 13,5 milljarða dala – um 1.700 milljarða króna – greiðslu vegna fjölda sinuelda sem úr sér gengið dreifikerfi félagsins hefur orðið kveikjan að síðustu ár.

Tillagan felur í sér stofnun sérstaks skaðabótasjóðs, sem fengi yrði lagt til reiðufé og hlutafé í félaginu til jafns, sem síðan yrðu seld hægt og rólega á næstu árum til að standa undir greiðslum til fórnarlamba. Samtals yrði um tæpan 21% hlut í félaginu að ræða, sem myndi gera fórnarlömbin stærsta einstaka hluthafa þess.

Fórnarlömbin bæru áhættu frekari elda
Lögmaður fórnarlambanna bendir hinsvegar á að auk andstöðu margra fórnarlamba við að gerast eigendur fyrirtækisins sem lagði líf þeirra í rúst – 18 sinueldar sem lagt hafa hátt í 16 þúsund heimili í eyði og orðið 107 manns að bana hafa verið raktir til fyrirtækisins síðustu ár – myndi ráðstöfunin þýða að fullnaðargreiðsla bótanna yrði háð afkomu félagsins næstu árin. Það myndi þýða að fórnarlömbin bæru beina fjárhagslega áhættu af frekari sinueldum og þeim skaða sem þeir kynnu að valda.

Félagið, sem rekur stærsta orkuveitufyrirtæki Kaliforníufylkis, þurfti að sækja um gjaldþrotavernd í upphafi síðasta árs vegna bótakrafnanna til að geta haldið áfram rekstri meðan úr málinu er leyst, en með bótasjóðstillögunni vonast það til að geta aflétt gjaldþrotaverndinni.

Umfjöllun Wall Street Journal.

Stikkorð: PG&E