Rússlandsforseti mælti fyrir því á sunnudag að helstu fjármála- og viðskiptastofnanir heims yrðu stokkaðar upp þannig að skipulag þeirra endurspeglaði í auknum mæli vaxandi mikilvægi nýmarkaða í alþjóðahagkerfinu.

Pútín let ummælin falla á viðskiptaráðstefnu í St. Pétursborg um helgina en hana sóttu fleiri en sex þúsund manns og meðal þeirra um hundrað stjórnendur frá stærstu fyrirtækjum heims. Forsetinn gerði að umræðuefni það kerfi alþjóðaviðskipta sem var sett á laggirnar eftir síðari heimstyrjöldina og byggir á stofnunum eins Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) og Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO).

Í ræðu sinni sagði forsetinn að núverandi skipulag alþjóðaviðskipta væri "fornt, ólýðræðislegt og þungt í vöfum." Máli sínu til stuðnings benti hann á að fyrir hálfri öld hefðu sjö helstu iðnríki heims staðið fyrir um sextíu prósentum af allri framleiðslu í heiminum, en nú sé sama hlutfall framleitt utan hagkerfa sjö helstu iðnríkjanna. Á sama tíma endurspeglist það hlutfall ekki í stofnunum alþjóðahagkerfisins. Hann sagði að umhverfi alþjóðaviðskipta ætti að byggjast í auknu mæli á svæðisbundnu samstarfi ríkja í stað stofnanavæðingar og að slíkt myndi endurspegla aukna vigt ríkja eins og Rússlands, Brasilíu, Kína og Indlands í alþjóðahagkerfinu og minna vægi Bandaríkjanna, Japans og helstu hagkerfa Evrópu. Auk þess hvatti hann seðlabanka heimsins til þess að halda gjaldeyrisforða sinn ekki eingöngu í evrum og Bandaríkjadölum.

Skipulag stofnana eins IMF hefur sætt gagnrýni fulltrúa ýmissa ört vaxandi þróunarhagkerfa að undanförnu sökum þess að valdahlutföllin innan þeirra hafa ekki þótt endurspegla vaxandi vægi hagkerfa eins og þess kínverska og indverska. Margir sérfræðingar telja að verði ekki skipulag þeirra aðlagað að breyttum veruleika muni það verða til þess að grafa undan núverandi mikilvægi þeirra.

Lífleg vika
Ummæli Pútíns um nauðsyn á breytingu á skipulagi umhverfis alþjóðahagkerfisins komu í kjölfar þess að hann stal senunni á fundi átta helstu iðnríkja heims (G8) í Þýskalandi í síðustu viku. Hann uppskar fordæmingu stjórnmálamanna víðsvegar um heim eftir að hann hótaði því að Rússar myndu beina kjarnorkueldflaugum sínum að skotmörkum í Evrópu á ný létu Bandaríkjamenn ekki af fyrirætlunum sínum um uppsetningu gagneldflaugakerfis í Póllandi og Tékklandi. Mikil spenna ríkir vegna þeirra fyrirætlana en rússnesk stjórnvöld telja að slíku kerfi sé beint gegn þeim. Á sjálfum fundinum stakk Pútín upp á óvæntri lausn á deilunni með því að lýsa því yfir að Rússar gætu sætt sig við að gagneldflaugakerfið yrði staðsett í Aserbaídsjan.

Tíu prósenta risi á morgum sviðum
En þrátt fyrir að borið hafi á frosthörkum í samskiptum rússneskra stjórnvalda við mörg ríki á Vesturlöndum að undanförnu vegna deilna um eldflaugavarnir og áhyggna manna yfir stöðu lýðræðis í landinu var ekki að sjá á ráðstefnuhaldinu um helgina að forkólfar stórfyrirtækja óttuðust að fjárfesta í landinu. Um hundrað stjórnendur hjá helstu stórfyrirtækjum heims sóttu ráðstefnuna í Pétursborg og funduðu meðal annars fyrir luktum dyrum með Pútín á laugardag. Fram kemur í fréttum erlendra fjölmiðla að skilaboð forsetans til viðskiptaleiðtoganna hafi verið skýr: Rússland er aðlaðandi staður fyrir fjárfestingu. Með þessu er forsetinn að svara þeim sem vara við fjárfestingu í landinu en meðal þeirra sem hafa haft um slík ummæli er Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Varnaðarorðin eru meðal annars komin til vegna áðurnefndar spennu í samskiptum stjórnvalda í Moskvu við Vesturlönd og vegna þess hve mikil ítök ríkisvaldið hefur í veigamiklum geirum.

Aðstoðarforsætisráðherra landsins, Sergei Ívanov sem hefur verið nefndur sem líklegur eftirmaður Pútíns og forsetastól, var einnig á ráðstefnunni. Haft er eftir honum í International Herald Tribune að hann telur að Rússar muni standa un undir tíu prósentum af heimsframleiðslu í geirum eins og kjarnorku, flugtækni, skipasmíði, hugbúnaðarframleiðslu og nanótækni á næstu áratugum en þótt að ríkisvaldið sé að koma á laggirnar fyrirtækjum til þess að leiða þá þróun muni þau samt sem áður eiga gott samstarf með erlendum fyrirtækjum.