„Við erum ánægð með árangurinn sem náðist á fyrstu níu mánuðum þessa stormasama árs,“ segir Janus Petersen, forstjóri Foroya banka í uppgjörstlkynningu frá félaginu.

Hagnaður Foroya banka á þriðja fjórðungi ársins nemur 48,8 milljónum danskra króna sem er 120% aukning miðað við þriðja fjórðung ársins 2007.

Samtals hagnaður fyrstu níu mánuði ársins nemur 69,7 milljónum danskra króna.

Grunnhagnaður bankans – hagnaður fyrir skatta án niðurfærslu á markaðsvirði verðbréfa og varúðarafskrifta á lánasafninu– jókst um 78% fyrstu níu mánuði ársins í samanburði við fyrstu níu mánuði ársins 2007.

Þessi mikla aukning á hagnaði af grunnstarfsemi útskýrist af því að nettó vaxtatekjur jukust um 44 milljónir danskra króna, ásamt því að rekstrarkostnaður lækkaði um 18 milljónir danskra króna á milli áranna.

Þá var 10% aukning á þjónustu- og þóknanatekjum á milli ára.

Tap af verðbréfasafni bankans nam 47 milljónum danskra króna fyrstu níu mánuði ársins í samanburði við hagnað um 22 milljónir danskra króna fyrstu níu mánuði ársins 2007.

Eiginfjárhlutfall bankans er 18% og lausafjárstaða bankans er sterk.

Nánar verður fjallað um uppgjör Foroya banka í Viðskiptablaðinu á morgun.