Forráðamenn Iceland bresku verslanakeðjunnar áttu fyrr í dag fund með fulltrúum skilanefnda Landsbankans og Glitnis. Gamli Landsbankinn er hluthafi í Iceland.

Á fundinn mættu Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Iceland, Malcolm Walker forstjóri félagsins og fjármálastjóri félagsins. Eftir því sem komist verður næst þá var fundurinn fyrst og fremst til að upplýsa um stöðu mála hjá skilanefnd en stór hluti skulda Iceland er við bankann. Þess má geta að rekstur Iceland hefur gengið vel á árinu og markaðsaukning þess á milli 16 og 17%.

Iceland er bresk verslanakeðja sem sérhæfir sig í frosnum matvælum. Hún er að hluta í eigu Baugs Group.

Þess má geta að hópur íslenskra fjárfesta, undir forystu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons sem er í 60% eigu Pálma Haraldssonar og 40% eigu Jóhannesar Kristinssonar, keypti breska matvöruverslanafyrirtækið The Big Food Group í árslok 2004 fyrir 326 milljónir punda en þar innanborðs voru auk Iceland Booker dreifingarfyrirtækið.