Við birtingu úrvalsvísitölu Kauphallarinnar sl. föstudag kom í ljós að Og fjarskipti kæmu ekki til greina við samsetningu úrvalsvísitölunnar þar sem félagið hefði ekki birt a.m.k. 90% tilkynninga sinna á ensku tímabilið janúar til maí 2005. "Samkvæmt útreikningum Og fjarskipta voru um 86% tilkynninga félagsins á ensku umrætt tímabil. Og fjarskipti telja vinnubrögð Kauphallarinnar í málinu ekki vera fullnægjandi enda hafði félagið ekki fengið formlega tilkynningu þess efnis að framangreind 90% regla væri forsenda þess að félagið hlyti sæti í úrvalsvísitölunni," segir í tilkynningu Og fjarskipta.

Einnig telur félagið að jafnræðis sé ekki gætt þar sem að félög séu tekin inn í vísitöluna sem eru langt frá því að uppfylla umrætt skilyrði. Og fjarskipti hafa hins vegar fullan hug á því bæta úr þessu og munu framvegis birta allar tilkynningar á ensku. Félagið stefnir því á að komast að nýju á lista úrvalsvísitölu að sex mánuðum liðnum.