Mér líst ótrúlega vel á þetta," segir Björn Þorláksson, nýr framkvæmdastjóri Húrra Reykjavík, en hann hefur starfað hjá Húrra frá árinu 2015 og tekur við af Jóni Davíð Davíðssyni, einum tveggja stofnenda Húrra. Fataverslunin var stofnuð árið 2014 af Jóni, ásamt Sindra Snæ Jenssyni og hafa þeir félagar stýrt búðinni frá stofnun. Þeir hafa að undanförnu opnað veitingastaðina Flatey og Yuzu auk næturklúbbsins Auto og ætlar Jón að sinna þeim verkefnum betur á meðan Sindri verður áfram í Húrra.

„Ég kynntist Sindra í æfingaferð með KR vorið 2014. Þá var ég í 2. flokki en hann var nýfluttur heim frá Köben og var á fullu að undirbúa opnun Húrra. Ég hóf störf í versluninni árið 2015 og byrjaði í fullu starfi ári síðar." Björn færði sig af gólfinu og upp á skrifstofu Húrra árið 2019, í fjármálatengd störf. „Við höfum verið að greina söluna og hvernig við stýrum innkaupum. Við vinnum með mikið af gögnum og notum greiningartól eins og Power BI, sem hefur gjörbreytt rekstrinum."

Björn útskrifaðist nýlega með tvær gráður frá Háskólanum í Reykjavík, í viðskiptafræði og tölvunarfræði. „Nýlega settum við nýja vefsíðu í loftið sem er alfarið unnin af okkur, ásamt Illuga félaga mínum sem var með mér í námi, og var það mjög skemmtilegt verkefni."

Björn er uppalinn í Vesturbænum og gekk upp alla yngri flokka KR. „Ég er nýfluttur aftur í Vesturbæinn og mér líður mjög vel þar." Hann hefur spilað fótbolta með KV frá árinu 2016. „Það fer aðeins minna fyrir fótboltanum hjá mér þessa stundina, en ég er ennþá í þessu því það er svo ótrúlega gaman í KV," en félagið hefur farið upp um tvær deildir á tveim árum og er í næstefstu deild. Björn hefur áhuga á fleiri íþróttum og hóf nýlega að spila golf reglulega. Björn er í sambúð með Lilju Dögg Diðriksdóttur, meistaranema í klínískri barnasálfræði. „Við höfum verið lengi saman og eigum mjög góða samleið, hún á helling í manni."

Björn segir algjör forréttindi að fá að starfa með vinum sínum en meirihluti starfsfólks Húrra á langan starfsferil hjá versluninni. „Við erum með mjög sterkt teymi."

Nánar er rætt við Björn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .