„Forritin eru að éta heiminn. Oft heldur fólk að aukin sjálfvirkni muni einungis hafa áhrif á verkamannastörf, en hún mun einnig hafa áhrif á mörg skrifstofustörf sem munu þurfa að aðlagast eða hverfa,“ segir Jeremy Tai Abbett, hönnuður frá Bandaríkjunum, sem starfaði þangað til nú um áramótin hjá Google en hans hlutverk var að ýta undir sköpun meðal starfsmanna.

Abbett flytur í dag fyrirlestur á Ímark deginum í Hörpu, en að þessu sinni er dagurinn helgaður sköpun, sköpunargleði og árangri af kynningar- og auglýsingastarfi.

Í dag starfar hann sem hugmyndasmiður og hönnuður með fyrirtækinu InsurTech.vc, en auk þess heldur hann reglulega fyrirlestra um hugðarefni sín og reynslu af því að starfa í forystusveit tækniþróunar.

Abbett mun í fyrirlestrinum ræða um reynslu sína af því að starfa í fyrirtækjum sem hafa verið í forystu þar sem tækniþróun mætir hönnun. Vill hann meina að takmarkandi þáttur framþróunar fyrirtækja í dag sé í raun ekki tæknin sjálf heldur fólkið í fyrirtækjunum. Þá helst menningin sem skapast í fyrirtækjum sem ekki leyfir eða hvetur til þess að starfsmenn eða jafnvel forystumenn spyrji spurninga.

„Helsta þema ráðstefnunnar er sköpun og hvernig við getum mælt og bætt sköpunarkraftinn,“ segir Abbett en hann segir gríðarlegar breytingar vera í uppsiglingu á umhverfi fyrirtækja með aukinni tölvuvæðingu.

Hann segir að fyrirtæki standi í auknum mæli frammi fyrir grundvallaróvissu um stöðu sína og jafnvel markmið, í iðnaði eins og tónlist, fjölmiðlum og bílaiðnaði, því fyrirtækin geti ekki lengur treyst á eigin þekkingu. Það ýtir enn frekar undir að fyrirtækin verði að geta lært til þess að geta haldið áfram að skipta máli.

Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnu Ímark í dag koma úr ýmsum áttum. Keven Chester, yfirmaður stefnumótunar hjá Ogilvy & Mather, flytur erindi þess efnis að vörumerki muni halda mikilvægi sínu, Russell Davies, rithöfundur og frumkvöðull mun tala um vörur, þjónustu og markaðssetningu og Laura Wood, yfirmaður almannatengsla hjá Jaguar Land Rover mun ræða um smitandi sköpunarvinnu og mælanlegum árangri af umtöluðum herferðum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .